Stöng í Þjórsárdal
Blómlegt samfélag þreifst í Þjórsárdal á 11. öld. Byggðin dreifðist á um 20 bæi og býli og taldi líklega um 400 til 600 einstaklinga sem deildu gleði, harmi og hefndum. Árið 1104 steyptist svartnættið yfir. Eldfjallið Hekla gaus, Þjórsárdælingar flúðu undan gjóskufalli og brátt varð dalurinn að grárri eyðimörk.
800 árum síðar gróf hópur norrænna fornleifafræðinga upp rústir nokkurra bæja í dalnum undan þykku lagi af vikri. Þar á meðal var Stöng, eitt af stórbýlum Íslands á þeim tíma. Byggt var yfir rústirnar og stendur sú yfirbygging enn. Um 50 árum síðar voru rústirnar nýttar sem fyrirmynd að byggingu Þjóðveldisbæjarins sem var reistur nokkru austar en upphaflega bæjarstæðið.
Miðaldadagur er haldinn að sumri, sjá nánar á Facebook síðu.
Gaukur Trandilsson
Á Stöng bjó Gaukur Trandilsson. Hann var auðugur og vel ættaður og er lýst sem frægum kappa þar sem hans er getið í fornum sögum. Sögu Gauks var ætlaður staður í Möðruvallabók, stærsta varðveitta miðaldasafni Íslendingasagna, á milli Njálssögu og Egilssögu. Hún var þó aldrei rituð þar inn og er nú talin glötuð. Um Gauk og fólkið sem bjó á Stöng er því lítið vitað.
Þó er til vísa sem hefur reynst uppspretta flökku- og þjóðsagna um einn atburð á Stöng. Vísunni bregður fyrir í gömlu danskvæði og hljómar svona:
Önnur var öldin,
er Gaukur bjó í Stöng.
Þá var ei til Steinastaða
leiðin löng.
Vísan gefur til kynna að samband hafi verið á milli Gauks og Þuríðar á Steinastöðum. Um sambandið sjálft er lítið vitað. Þuríður var gift kona og frænka Ásgríms Elliða-Grímssonar fóstbróður Gauks. Í Landnámu er þess getið að grýta hafi átt Þuríði, en þó kemur ekki fram fyrir hvaða sakir. Vitað er að Ásgrímur var banamaður Gauks, en fyrir hvaða sakir hann vó fóstbróður sinn er ekki heldur vitað með vissu. Hvort allir þessir atburðir tengist getur ímyndunaraflið eitt svarað.
Daglegt líf í dalnum
Það var mikil vinna að halda heimili á Þjóðveldisöld. Þá var hvorki rafmagn né rennandi vatn til að létta verkin. Fólk bjargaði sér með því sem var aðgengilegt úr umhverfinu og nýttu hráefni úr náttúrunni til matar, í húsagerð eða við verkfærasmíði. Allur matur var unninn frá grunni, skinn verkuð, föt saumuð og skepnum sinnt.
Á hverju heimili bjuggu nokkrar kynslóðir saman ásamt vinnufólki, þrælum og jafnvel frillum og börnum þeirra. Þá voru engar stofnanir til fyrir þau sem ekki gátu séð um sig sjálf og heimilisfólkið annaðist því börn, aldraða, sjúka og fatlaða.