Þjóðveldisbærinn

Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal er tilgátuhús sem er byggður eftir rústum skálans á Stöng. Bærinn veitir innsýn í líf forfeðra okkar og mæðra og er eins og önnur tilgátuhús byggð eftir fornleifum, sögulýsingum í ritheimildum og samanburði við önnur hliðstæð hús. Þar sem sögulegum staðreyndum sleppir tekur svo ímyndunaraflið við.

Bærinn

Við byggingu Þjóðveldisbæjarins var farið eftir stærð, legu og lagi húsarústanna að Stöng. Náin hliðsjón var höfð af allri innréttingu skálans, til að mynda staðsetningu palla, bekkja, klefa, gólfhellna, eldstæðis, dyra og stórkeralda í jörð.

Þar sem rústirnar á Stöng gátu ekki gefið svar var stuðst við aðrar heimildir. Þar má nefna leifar af fornri íslenskri trésmíð, byggingarleifar frá Grænlandi, húsalýsingar í fornritum og fornt norrænt stafverk.

Þjóðveldisbærinn var byggður í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974. Við tilefnið var ákveðið að endurreisa stórbýli frá þjóðveldisöld og vel varðveittar rústirnar á Stöng þóttu góð fyrirmynd. Húsið var vígt árið 1977.

Bænhús

Við Þjóðveldisbæinn stendur tilgátukirkja af dæmigerðu íslensku bænhúsi frá miðöldum. Hún er að mestu byggð eftir grunni lítillar kirkju eða bænhúss sem kom í ljós við fornleifarannsóknir á Stöng á árunum 1986, 1992 og 1993. Rústin er talin vera frá 11. öld.

Upphaflega var tilgátukirkjan sett upp í Þjóðminjasafni Íslands árið 1997 fyrir kirkjulistasýningu. Árið 2000 var hún flutt austur í Þjórsárdal og endurreist við Þjóðveldisbæinn í tilefni 1000 ára afmælis kristni á Íslandi. Bænhúsið er opið gestum sem er velkomið að ganga inn og njóta helgi þess.